Spurt og svarað

1.      Er skylda að skrá hunda?
2.      Er hundurinn minn skráður ef hann er örmerktur?
3.      Er hundurinn minn skráður ef hann er með ættbók frá hundaræktarfélagi?
4.      Í hvað fara hundaleyfisgjöldin?
5.      Er þörf á fleiri hundasvæðum?
6.      Þurfa hundar að hreyfa sig lausir?
7.      Er sanngjarnt að nota skattfé almennings í þjónustu þröngs hóps?
8.      Er sanngjarnt að fórna vel staðsettum útivistarsvæðum líkt og Laugardal, Klambratúni, Fossvogsdal og fleirum, undir hundagerði? Eiga slík hundasvæði ekki frekar heima utan byggða?
 
1.      Er skylda að skrá hunda?
SVAR: Já, það er skylda að skrá hunda í mörgum sveitarfélögum. T.d. er það skylda í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
 
2.      Er hundurinn minn skráður ef hann er örmerktur?
SVAR: Nei. Þegar hundur er örmerktur er hann skráður í tölvukerfi dýralæknisins sem örmerkti hann, en það er ekki það sama og að skrá hundinn hjá sveitarfélaginu. Það er hinsvegar skylda að örmerkja hundinn áður en hann eru skráður hjá sveitarfélaginu. Einnig er skylda að skrá í örmerkjagagnagrunn en sú skráning er á vegum Dýralæknafélagsins og tengist ekki skráningu hjá sveitarfélagi.
 
3.      Er hundurinn minn skráður ef hann er með ættbók frá hundaræktarfélagi?
SVAR: Nei. Ættbók og skráning hjá hundaræktarfélagi tengist ekki skráningu hjá sveitarfélagi. Það er valfrjálst að vera skráður í hundaræktarfélag, en skylda að skrá hunda hjá sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og nokkrum sveitarfélögum á landsbyggðinni.
 
4.      Í hvað fara hundaleyfisgjöldin?
SVAR: Í samþykkt um hundahald í Reykjavík stendur: „...Gjöldum þessum er ætlað að standa undir kostnaði borgarinnar af hundahaldinu og framkvæmd samþykktar þessarar.“ Gjöldin fara meðal annars í að greiða laun hundaeftirlitsmanna, vörslu fyrir hunda sem finnast lausir og iðgjöld ábyrgðatryggingar fyrir alla skráða hunda. 
 
5.      Er þörf á fleiri hundasvæðum?
SVAR: Margar kvartanir berast á ári hverju til borgaryfirvalda vegna lausagöngu hunda og það er miður. Margir hundaeigendur eru hinsvegar í þeirri stöðu að þurfa að keyra langar leiðir til að geta sleppt hundum sínum lausum og því freistast sumir þeirra til að brjóta reglurnar og leyfa hundinum að ganga laus öðru hvoru nálægt heimilinu. Lausaganga hunda getur verið öðrum til ama og það verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess. Á hinn bóginn er engan veginn komist til móts við hundaeigendur, sem fer fjölgandi með ári hverju, með því að hafa svo fá hundasvæði sem raun ber vitni. Með uppsetningu hundagerða í öllum hverfum borgarinnar geta hundaeigendur gengið með hunda sína til að sleppa þeim lausum og kvörtunum yfir lausagöngu hunda myndi fækka.
 
6.      Þurfa hundar að hreyfa sig lausir?
SVAR: Hundar þurfa að hreyfa sig daglega en þeir fá margir hverjir ekki næga hreyfingu í taumgöngu. En það er ekki síður nauðsynlegt fyrir félagsþroska hunda að fá að leika sér lausir við aðra hunda. Hér í höfuðborginni eru ekki nógu mörg tækifæri fyrir hunda til að æfa sig í að hitta aðra hunda. Þar sem þeir hafa ekki tækifæri til þess eru meiri líkur á slagsmálum milli hunda þá sjaldan sem þeir hittast. Einn af kostum hundasvæða væri því að fleiri hundar læri umgengni við aðra hunda.
 
7.      Er sanngjarnt að nota skattfé almennings í þjónustu þröngs hóps?
SVAR: Hundaeigendur á höfuðborgarsvæðinu eru nú þegar að greiða rúmlega 70 milljónir í hundaleyfisgjöld á ári, það eru ekki skattpeningar almennings heldur sérstök gjöld sem aðeins hundaeigendur greiða. Samt sem áður er þjónustan við hundaeigendur engin. Jafnvel þó hundaeigendur væru ekki að greiða þessi gjöld þá eru ótal dæmi um það að skattfé almennings sé notað í þjónustu lítilla hópa, eins og sjá má á aðstöðu til sjósundsiðkunar í Nauthólsvík, frisbee-golfvelli á Klambratúni, blakvöllum á Klambratúni, Nauthólsvík og víðar, og hjólabrettagarði sem á að rísa í Laugardal. Allt er þetta til að auka hreyfingu, útivist og ánægju borgarbúa og það er af hinu góða. Einnig er það ein tegund hreyfingar og útivistar að ganga með hund og því ekki svo ólíkt tómstundunum sem nefndar eru hér að ofan.
 
8.      Er sanngjarnt að fórna vel staðsettum útivistarsvæðum líkt og Laugardal, Klambratúni, Fossvogsdal og fleirum, undir hundagerði? Eiga slík hundasvæði ekki frekar heima utan byggða?

SVAR: Eins og er höfum við fá hundasvæði á höfuðborgarsvæðinu. Hundar þurfa að hreyfa sig daglega og hitta aðra hunda lausir og í lögum um Dýravernd stendur “Tryggja skal dýrum eðlilegt frelsi til hreyfingar”. En á sama tíma verða hundaeigendur að fylgja lögum og reglum og hafa hunda ávallt í taumi. Þetta stangast einfaldlega of mikið á. Það er ekki sanngjarnt að skikka hundaeigendur til að keyra langar leiðir á degi hverjum til þess eins að geta sleppt hundinum lausum. Lausnin er að hafa hundagerði í öllum hverfum borgarinnar. Erlendis eru hundagerði iðulega staðsett í almenningsgörðum og þykir það sjálfsagt. En gerðin taka einungis lítið pláss í almenningsgarðinum og nóg pláss eftir fyrir gangandi vegfarendur og aðra dægurdvöl í garðinum. Þá geta hundarnir hlaupið lausir innan gerðis án þess að verða gangandi vegfarendum til ama, og það mun jafnvel lífga upp á ímynd útivistarsvæðisins, því börn gætu fengið að fylgjast með hundunum leika sér í örygginu utan gerðis. Það er mat Félags ábyrgra hundaeigenda að það muni minnka ólöglega lausagöngu hunda og sé því allra hagur að hafa hundagerði í almenningsgörðum og sem víðast innan borgarmarkanna.