Vegna athugasemda MAST

Miðvikudagur, 15. nóvember 2017 - 23:45

Nýlega var unnin skýrsla af tveimur félagsmönnum FÁH og birt í nafni félagsins og fjallar hún um stöðu innflutningsmála gæludýra á Íslandi.
 
Að gefnu tilefni vill FÁH taka fram að félagið er hagsmunafélag sem vill stuðla að því að hundahald á Íslandi verði eins og best gerist í nágrannalöndum okkar. Félagið er öllum opið sem vilja stuðla að því að þetta markmið náist. Öll vinna félagsins er sjálfboðavinna og hefur félagið enga fjármuni til að kosta lögfræðilegt álit eða mat óháðra aðila þegar það er að kryfja einstök mál. Fyrrnefnd skýrsla um innflutningsmál gæludýra var liður í því að opna umræðuna um þessi mál og var hún unnin eftir bestu getu leikmanna upp úr þeim upplýsingum sem er að finna í opinberum gögnum. Hvatinn að gerð skýrslunnar var óánægja margra félagsmanna varðandi innflutningsmál gæludýra á Íslandi.
 
Við þökkum MAST fyrir ítarlegar athugasemdir, sem stofnunin hefur birt við skýrslu FÁH. Við erum mjög ánægð með þá gaumgæfni og vinnu sem lögð hefur verið í athugasemdirnar, enda um áríðandi málefni að ræða. Við munum fara yfir þessar athugasemdir og birta uppfærða útgáfu af skýrslunni að því loknu. 

Deila á samskiptavef