Verkefni FÁH

Fyrstu skref félagsins
Félagið var stofnað í janúar 2012 í framhaldi af því að hópur hundaeigenda vildi setja saman þrýstihóp vegna skorts á hundasvæðum á höfuðborgarsvæðinu. Stjórn var mynduð og félagið stofnað. Frá stofnun hafa stjórnarmeðlimir hist mjög reglulega með nokkur verkefni í vinnslu. Helsta verkefnið var að þrýsta á framkvæmdir vegna hundasvæða ásamt því að setja upp heimasíðu félagsins.
Stjórn félagsins heldur áfram að hittast 3-4 sinnum í mánuði til að vinna að verkefnum sem tengjast þeim málefnum sem brenna á hverju sinni. Í dag er skrið komið á framkvæmdir vegna hundasvæða og verkefni félagsins orðin fleiri og nokkuð skýr en munu þó halda áfram í mótun.

Sköpum góða hundamenningu á Íslandi
Hundamenning sem er við lýði hér á landi er langt á eftir þeirri sem er í nágrannalöndum okkar. Enn fremur telja einhverjir að með því að gera hundaeigendum kleift að sinna hundum sínum betur, er ekki verið að skerða rétt þeirra sem eiga ekki hunda.
Það eru enn við lýði gamaldags og úreltar hugmyndir um eðli hunda, samband hunda og eigenda þeirra, hvað hundum er fyrir bestu og svo framvegis. Það er mat okkar að með samvinnu, fræðslu og jákvæðu hugarfari er hægt að kippa samfélaginu í heild inn í nútímalegt hugarfar gagnvart hundum og hundaeigendum.

Stækkum félagið og virkjum hundaeigendur
Því stærri hópur sem félagið hefur bakvið sig, því meiri áhrif getur félagið haft í samfélaginu. Þar sem flestir hundaeigendur eru nú þegar ábyrgir, þá gerum við ráð fyrir því að félagsmenn muni flykkjast í félagið og vinna með okkur að því að móta markmið og vinna að góðu og hundavænu samfélagi.

Vinna með sveitarfélögum
Stjórn félagsins mun vinna hörðum höndum að því að koma á tengslum við þá fulltrúa sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem vinna að málefnum hunda og hundaeigenda. Með góðri samvinnu, fræðslu og verðug markmið að leiðarljósi er allt hægt.

„Þrífum upp eftir hundana okkar“ átak
Það er öllum ljóst að ábyrgir hundaeigendur tína upp eftir hunda sína. Mikill meirihluti hundaeigenda eru ábyrgir og skilja ekki eftir skít eftir hunda sína. Það er alltaf gott að minna á hversu mikilvægur þessi þáttur er og því mun félagið standa fyrir átaki í þessum málum. Gert er ráð fyrir því að fyrsta átakið verði  2013.

Fleiri hundasvæði á höfuðborgarsvæðið
Þetta verkefni var ástæðan fyrir því að félagið var stofnað.  Þetta einstaka verkefni mun að öllum líkindum verða eitt af grunn verkefnum félagsins enda gríðarlega mikilvægur þáttur í því sem við teljum eðlilegt hundahald í borg.  Hér er að finna upplýsingar um hundasvæði.

Guli hundurinn
Guli hundurinn er mjög verðugt og gott verkefni. Það snýr að því að ef þú sérð hund með gulan borða, gula slaufu, gulan klút eða eitthvað með gulum lit á taumnum, hálsbandinu eða beislinu, þá skaltu gefa honum meira pláss. Guli liturinn táknar að hundurinn getur ekki verið mjög nálægt öðrum dýrum og/eða fólki.
FÁH vill endilega kynna þetta verkefni eins mikið og hægt er, þannig að hægt sé að þjálfa, endurhæfa og vernda hunda án þess að hætta sé á ferðum.